„Þetta er rosalega svekkjandi og hefði leikurinn verið tíu mínútum lengur hefði sigurinn verið okkar,“ sagði Þorgerður Anna Atladóttir eftir tapið gegn Svartfjallalandi í dag.
Ísland tapaði, 26-23, eftir hetjulega baráttu og frábæran lokakafla. En Svartfellingar höfðu náð of mikilli forystu í leiknum og Íslendingar brunnu út á tíma.
„Íris Björk kom inn í markið og stóð sig frábærlega. Þetta small næstum því og munaði ekki miklu,“ bætti hún við.
„Ég held að allir sem hafa horft á þennan leik hafa séð það að við verðskulduðum ekki svona stórt tap á þriðjudaginn. Það er því ekkert annað í stöðunni fyrir okkur en að taka Rússana á laugardaginn.“