Íslenska 16 ára landslið karla í körfubolta er Norðurlandameistari eftir 28 stiga stórsigur á Svíum, 82-54, í úrslitaleik á Norðurlandamótinu sem fór fram í Solna í Svíþjóð.
Íslenska liðið átti frábæran leik í úrslitaleiknum og heimamenn áttu aldrei möguleika gegn samstilltu og vel spilandi íslensku liðið. Ísland vann leik liðanna í riðlinum með 4 stigum en frábær frammistaða strákanna sá til þess að úrslitaleikurinn var aldrei spennandi.
Valur Orri Valsson skoraði 22 stig og gaf 5 stoðsendingar hjá íslenska liðinu, Martin Hermannsson var með 21 stig, Maciej Baginski gerði 15 stig og Matthías Orri Sigurðarson skoraði 14 stig.
Íslenska liðið breytti stöðunni úr 16-13 í 31-17 í fyrsta leikhluta, komst mest í 20 stiga forustu í öðrum leikhluta (46-26) og var 9 stigum yfir í hálfleik, 48-39. Íslenska liðið vann síðan þriðja leikhlutann 16-8 og landaði öruggum sigri í lokaleikhlutanum.
Íslenska liðið vann alla fimm leiki sína á mótinu þarf af hafði liðið líka unnið stórsigra á bæði Finnum og Norðmönnum.
Einar Árni Jóhannsson er þjálfari íslenska liðsins og er þetta í annað skiptið sem hann gerir landslið að Norðurlandameisturum. 18 ára landsliðið varð Norðurlandameistari undir hans stjórn árið 2004.
