„Það er mjög gott að ná að vinna eins sterkt lið og Oldenburg er," sagði Stefán Arnarson, þjálfari kvennaliðs Vals. Valur vann Oldenburg 28-26 í EHF-bikarnum í kvöld en er samt úr leik þar sem fyrri viðureignin endaði með ellefu marka sigri þýska liðsins á laugardag.
„Fyrri hálfleikurinn í leiknum á laugardaginn var góður. Við vorum fimm mörkum undir þegar tíu mínútur voru eftir. Við klúðruðum þessu bara á lokasprettinum í fyrri leiknum."
„Við fórum vel yfir það sem fór úrskeiðis í fyrri leiknum og löguðum það. Vörnin var mjög góð og markvarslan góð, hraðaupphlaupin gengu mun betur en í fyrri leiknum. Sóknarleikurinn var mun agaðri," sagði Stefán.
Framundan hjá Valsliðinu eru leikir gegn HK og Stjörnunni í N1-deildinni. „Það verður erfitt því við erum núna búin að spila tvo mjög erfiða leiki á tveimur dögum. Það er því ljóst að næstu leikir gætu verið erfiðir fyrir okkur."