Íslenska 16 ára landslið karla spilar á morgun til úrslita um Norðurlandameistaratitilinn en NM yngri landsliða stendur nú yfir í Solna í Svíþjóð. Íslensku 16 ára strákarnir hafa unnið alla fjóra leiki sína á mótinu þar á meðal fjögurra stiga sigur á Svíum sem verða mótherjar þeirra í úrslitaleiknum.
16 ára liðið tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með 71-61 sigri á Dönum í lokaleik riðlakeppninnar í dag. Valur Orri Valsson skoraði 22 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í leiknum. Martin Hermannsson hefur verið besti maður liðsins í mótinu og hann var með 17 stig og 5 stoðsendingar á móti Dönum í dag.
18 ára landslið karla mætir Norðmönnum í leik um þriðja sætið eftir naumt tap á móti Finnum, 80-85 í dag. Haukur Helgi Pálsson var með 28 stig í leiknum og Kristófer Acox skorðai 22 stig og tók 11 fráköst.

