Það var nítján ára sonur þjálfarans Ralf Rangnick hjá 1899 Hoffenheim, Kevin, sem benti föður sínum fyrst á Gylfa Þór Sigurðsson sem í fyrradag gekk í raðir þýska úrvalsdeildarliðsins.
Þetta kom fram í þýskum fjölmiðlum í gær. Þar var fullyrt að Kevin Rangnick, sonur þjálfarans, hefði komið auga á Gylfa þegar hann var staddur í skóla í Bradfield sem er í nágrenni Reading þar sem Gylfi sló í gegn í fyrra.
„Hann sá Gylfa spila nokkrum sinnum og sagði mér að það væri leikmaður í ensku B-deildinni sem væri virkilega góður," sagði Rangnick eldri við þýska fjölmiðla.
Svo fór framkvæmdastjóri liðsins, Ernst Tanner, á U-21 landsleik Íslands og Þýskalands í síðasta mánuði.
„Ég ætlaði eiginlega bara að fylgjast með þýska liðinu. Þá kom ég auga á Sigurðsson. Hann var besti leikmaður vallarins," sagði Tanner.
Í kjölfarið fékk félagið leyfi fyrir útsendara á sínum vegum að fylgjast með Gylfa á æfingum hjá Reading í eina viku og eftir það fóru hjólin að snúast.
„Gylfi getur spilað fyrir aftan framherjana og á miðjunni. Hann skoraði sextán mörk í deildinni í fyrra, fimm í bikarnum og fjögur með U-21 liðinu. Við keyptum hann á hárréttum tíma, áður en stóru liðin létu til sín taka. Ég ræddi við útsendara frá Arsenal og félagið hafði áhuga á honum. Það er hins vegar engin þörf fyrir leikmenn í hans stöðu einmitt nú," bætti Rangnick við.
