Ljóst er að hringvegurinn við Markarfljót verður ekki opnaður á hádegi eins og stefnt var að. Á heimasíðu Vegagerðarinnar segir að vegna flóðanna í gærkvöldi og í nótt hafa skapast nýjar aðstæður.
„Vegagerðin er að kanna skemmdirnar og aðstæður á þessu svæði og skoða leiðir til að opna veginn. Einnig stöðu varnargarða en tryggja þarf að flóðavatn fari sem mest undir Markarfljótsbrúna í stað þess að berja á veginum austan brúarinnar," segir ennfremur en nánari fregna er að vænta á næstu klukkustundum.
Frá Almannavörnum hafa borist þær fregnir að vinna liggi niður alfarið á veginum vegna vatnsmagns í ánni.
Lögð er áhersla á að halda neyðarleið opinni yfir gömlu Markarfljótsbrúna en hún er lokuð almennri umferð.
Gamla brúin yfir Markarfljót er nú opin fyrir umferð með takmörkunum, mest vörubílum með 12 tonna heildarþunga. Aðgerðarstjórn á Hvolsvelli hefur umsjón með umferð yfir brúna, fyrst og fremst brýnum flutningum á matvælum, búfénaði og þess háttar.