Fótbolti

Gana reynir að fá Balotelli í sínar raðir

Ómar Þorgeirsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Nordic photos/AFP

Ítalska blaðið Gazzetta dello Sport greinir frá því að aðstandendur landsliðs Gana, sem tekur þátt í lokakeppni HM í sumar, séu ekki búnir að gefa upp alla von um að sannfæra framherjann Mario Balotelli hjá Inter um að spila fyrir Gana.

Hinn nítján ára gamli Balotelli hefur slegið í gegn með Inter en þrátt fyrir að vera borinn og barnfæddur á Ítalíu þá eru foreldrar hans frá Gana og þar sem leikmaðurinn hefur til þessa aðeins leikið með U-21 árs landsliði Ítalíu þá er hann enn löglegur að spila fyrir A-landslið Gana.

Landsliðsþjálfarinn Miroslav Rajevac hjá Gana mun til að mynda ætla að heimsækja Balotelli til þess að reyna að sannfæra leikmanninn en Sulley Muntari, liðsfélagi Balotelli hjá Inter, leikur með Gana og mun einnig vera að reyna að telja honum trú um að velja Gana fram yfir Ítalíu.

„Hann er gríðarlega hæfileikaríkur og hefur burði til þess að verða einn besti framherji í heimi. Gana ætlar að bjóða honum einstakt tækifæri þar sem hann getur tekið þátt í lokakeppni HM og allir hjá landsliði Gana myndu taka honum með opnum örmum," segir Rajevac.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×