Fótbolti

Mourinho krefst virðingar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

José Mourinho, þjálfari Inter, missti sig í sigurvímunni gegn Barcelona á dögunum og lofaði því þá að hann yrði áfram hjá Inter næsta vetur. Hann hefur nú dregið í land með þær yfirlýsingar.

„Ég get ekki lofað því að ég verði hér áfram. Í fótbolta getur allt gerst," sagði Mourinho aðspurður hvort hann gæti lofað því að hann yrði áfram í herbúðum félagsins næsta vetur.

Mourinho var annars brattur á blaðamannafundinum en hann var einnig spurður að því hvort þrenna hjá Inter í ár myndi gera hann að besta þjálfara í heimi.

„Ég hef unnið þrjá titla á sama tímabilinu áður þannig að þetta yrði í annað skiptið. Ég tel mig ekki vera þann besta en ég er maður sem geri alltaf mitt besta. Þess vegna sef ég vel á nóttunni," sagði Mourinho sem vill að ítalskir fjölmiðlar beri meiri virðingu fyrir liðinu hans.

„Munurinn á því að vinna og vinna ekki neitt er mjög lítill. Við erum komnir í úrslit í bikar og Meistaradeildinni og erum að keppa um ítalska meistaratitilinn. Ég er því ekki að biðja um virðingu, ég krefst virðingar," sagði Portúgalinn ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×