Handbolti

Þórir með norsku stelpurnar í úrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gro Hammerseng í baráttunni í dag.
Gro Hammerseng í baráttunni í dag. Nordic Photos / AFP

Danir áttu ekki roð í landslið Noregs í undanúrslitum á EM í handbolta sem farið hefur fram í þessum tveimur löndum undanfarnar tvær vikur. Noregur vann öruggan sigur, 29-19.

Norðmenn skoruðu fyrstu fimm mörkin í leiknum og létu forystuna aldrei af hendi eftir það. Danir náðu að hanga inn í leiknum í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 14-10, Norðmönnum í vil.

Þær norsku stungu svo endanlega af í seinni hálfleik og skoruðu fjögur síðustu mörk leiksins eftir að Danir gáfust upp.

Linn Jorum Sulland skoraði sjö mörk fyrir Noreg í dag og þær Heidi Löke og Gro Hammerseng fimm hvor. Hjá Dönum var Rikke Skov markahæst með fimm mörk.

Norðmenn mæta Svíum í úrslitaleiknum en þessi lið mættust í milliriðlakeppninni og höfðu þá Svíar betur. Þá var nokkuð um veikindi í norska landsliðshópnum. Þórir og leikmenn hans fá nú tækifæri til að hefna fyrir það tap á morgun.

Noregur hefur unnið síðustu þrjú Evrópumeistaramót og alls fjórum sinnum frá upphafi. Svíar hafa hins vegar aldrei unnið til verðlauna á EM, þar til nú.

Úrslitaleikurinn hefst klukkan 16.00 en Danir mæta Rúmenum í leik um bronsið klukkan 13.30.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×