Fótbolti

Mourinho á leið í lengra bann - skipti sér af leik Inter um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Inter.
Jose Mourinho, þjálfari Inter. Mynd/AFP
Jose Mourinho, þjálfari Inter, gæti verið á leiðinni í lengra bann frá ítölsku úrvalsdeildinni eftir að upp komst að Portúgalinn hafi verið að koma taktískum skilaboðum til aðstoðarmanna sinna í leik Inter um helgina þegar hann átti að vera í leikbanni.

Mourinho var dæmdur í þriggja bann fyrir hörð og myndræn mótmæli í leik á móti Sampdoria þar sem hann lét meðal annars sem að það væri búið að handtaka hann til að mótmæla dómara leiksins, Paolo Tagliavento. Tagliavento hafði þá rekið tvo leikmenn Inter útaf í fyrri hálfleik.

Mourinho átti að taka út annan leikinn í banninu í 0-0 jafnteflinu við Genoa um helgina en hann sást þá gefa aðstoðarmanni sínum, Giuseppe Baresi, taktískar leiðbeiningar í miðjum leik.

Mourinho gæti fengið einn leik í bann til viðbótar verði málið tekið fyrir en það eru fordæmi fyrir því á Ítalíu á þessu tímabili að þjálfari í banni hafi fengið aukaleik í bann fyrir að skipta sér af leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×