Körfubolti

Jóhann: Hver er í sínu horni og allar á einhverju egótrippi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joanna Skiba og félagar í Grindavík fundu sig ekki í kvöld.
Joanna Skiba og félagar í Grindavík fundu sig ekki í kvöld.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, sagði að liðið sitt hafi ekki unnið saman sem lið í fjórtán stiga tapi á móti Keflavík í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Grindavík hafði unnið fjóra síðustu leiki sína í deildinni en náði ekki að framlengja sigurgönguna í kvöld.

„Við vorum ekki klárar í það sem við ætluðum okkur. Við vorum búin að tala um það sem við ætluðum að gera en það hefur farið inn um annað og út um hitt. Við vorum ekki klárar í þennan leik," sagði Jóhann.

„Ef við erum eins og við vorum í kvöld, þar sem hver er í sínu horni og allar á einhverju egótrippi, þá erum við bara skítlélegt lið. Ef við gerum eins og við höfum verið að gera lungan úr vetrinum þar sem við erum að vinna þetta saman þá erum við með fantagott lið," segir Jóhann.

„Það kom smáorka í byrjun seinni hálfleiks og síðan aðeins í restina. Við gátum samt ekki neitt í þessum leik," segir Jóhann en hann ætlar ekki að tapa sér yfir þessum eina leik.

„Við ætlum okkur annað sætið því ég held að það sé ekki raunhæft markmið að ná KR-ingunum. Við stöldrum ekki of lengi í þessum leik og nú ætlum við þrusa fram á við. Við pælum aðeins í þessu í kvöld og ræðum þetta á morgun en síðan höldum við bara áfram að vinna í því sem þarf til þess að bæta okkarleik," sagði Jóhann Þór að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×