Enski boltinn

Ancelotti: Chelsea verður að fara að bæta sinn leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea. Mynd/AFP

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, er ekki alltof ánægður með stöðuna á sínu liði þrátt fyrir að Chelsea hafi unnið tvo fyrstu leiki sína í Meistaradeildinni sex af fyrstu sjö leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Chelsea vann 1-0 sigur á Apoel Nicosia í Meistaradeildinni í gær en frammistaða liðsins var ekki góð.

„Ég er ekki ánægður því ég var að vonast eftir því að við myndum spila betur. Við verðum að taka völdin í okkar leikjum og spila með meira hugrekki. Þetta er kannski eðlilegt miðað við hvar við erum á tímabilinu en að verðum að fara breyta þessu," sagði Ancelotti og bætti við:

„Nicosiu-liðið spilaði mjög vel í seinni hálfleik og átti skilið að fá stig út úr þessum leik. Við vorum með stjórnina í fyrri hálfleik en svo hleyptum við þeim svo inn í leikinn," sagði Ancelotti.

Chelsea tapaði 1-3 á móti Wigan í ensku deildinni um síðustu helgi og hefur því verið allt annað en sannfærandi fyrir í tveimur síðustu leikjum sínum fyrir stórleikinn á móti Liverpool um helgina.

„Ég er ekki reiður út í mína leikmenn. Ég hef mikla trú á þeim og þekki það sem leikmaður hvernig er að fara í gegnum svona leiki. Við fáum núna tíma til að hvíla okkur og undirbúa okkur vel fyrir mikilvægan leik á móti Liverpool. Við munum ekki spila aftur svona því það er öruggt að við munum spila mun betur," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×