„Mér líður rosalega vel núna fyrir utan smá verk í hnénu. Það er samt aukaatriði. Þetta var frábær leikur. Við erum með magnað lið og æðislegan hóp. Gróttan kom sterk í þennan leik en við ætluðum okkur þennan titil og það var aldrei spurning að við myndum vinna," sagði Sigfús Sigurðsson kátur með gull utan um hálsinn og bikar í fanginu.
Sigfús segist ekkert hafa óttast þó svo Grótta næði að minnka muninn í tvö mörk.
„Nei, ég var aldrei stressaður. Við bættum bara í og kláruðum þetta. Það er ekki ónýtt að fá strax bikar en við erum ekki hættir og ætlum okkur meira í vetur. Íslandsmeistaratitillinn kemur til okkar," sagði Sigfús sem var að næla í sitt tíunda gull á Íslandi.