Gengi hlutabréfa í Straumi hækkaði um 4,12 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins og fór það yfir tvær krónur á hlut og hefur ekki verið hærra síðan skömmu eftir miðjan desember í fyrra.
Gengi bréfa í Straumi stóð í 7,08 krónum á hlut þegar það lá á salti Fjármálaeftirlitsins um tveggja mánaða skeið eftir bankahrunið í október í fyrra en hríðféll þegar viðskipti hófust á ný í byrjun desember. Lægst fór það í rétt rúma krónu á hlut í byrjun síðasta mánaðar.
Á sama tíma hefur gengi bréfa í Marel Food Systems lækkað um 1,32 prósent og í Össuri um 1,13 prósent.
Tvenn viðskipti upp á tæpar 12 milljónir króna standa á bak við lækkun Marels.
Gengi hlutabréfa Marels stendur í 59,8 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í ágúst árið 2005.
Heildarviðskipti í Kauphöllinni eru 13 talsins upp á 61 milljón krónur.
Úrvalsvísitalan (OMXI15) hefur hækkað um 0,26 prósent og stendur hún í 318 stigum.