Haukarnir unnu öruggan sigur á Val í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild karla í handbolta. Haukamaðurinn Kári Kristjánsson var í miklum ham í leiknum.
„Þeir áttu ekki möguleika í okkur í dag og þetta kallast að svara fyrir sig, það er alveg klárt," sagði Kári Kristjánsson, markahæsti leikmaður Hauka í dag. Kári skoraði 7 mörk úr 7 skotum í leiknum.
„Ég passaði mig fullmikið í öðrum leiknum og var alltof rólegur. Ég sá að það þýddi ekkert og ég tók þetta bara alla leið í þessum leik. Ég fékk rautt spjald og skilaði fínum leik," sagði Kári í léttum tón.
„Birkir Ívar er að verja hátt upp í 20 bolta á fimmtíu mínútum og við erum að spila fantavörn. Við slökuðum síðan kannski aðeins á síðasta korterið og erum að fá á okkur óþarfa mörk upp úr engu," sagði Kári.
„Heilt yfir þá erum við með leikinn alveg gjörsamlega í okkar höndum. Við erum sjö mörkum yfir lungann úr leiknum og þeir áttu bara ekki möguleika í okkur í dag," sagði Kári kátur.
„Það er klárlega markmiðið okkar að vinna titilinn á Hlíðarenda á þriðjudaginn. Við fórum illa út úr Vodafone-höllinn síðast en við ætlum að mæta í þessum ham í næsta leik og klára dolluna," sagði Kári.