Skoðun

Velmegunarístran

Viðskiptaráð birti í gær athugasemdir við fyrir­hugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar. Álit ráðsins er almennt vel ígrundað og rökfast. Þar er meðal annars bent á að megnið af aðlögunar­aðgerðum til að mæta vanda ríkissjóðs sé í formi skattahækkana og að ekki sé lögð næg áhersla á nauðsynlegan niðurskurð og aðhald í ríkisrekstrinum.

Þetta er réttmæt gagnrýni. Útgjöld ríkisins hafa þanist út og starfsmönnum hins opinbera hefur fjölgað óhóflega. Borgar­fulltrúinn Gísli Marteinn Baldursson orðaði þetta ágætlega í pistli á heimasíðu sinni fyrir skömmu þegar hann benti á að: „Bara í stjórnsýslunni sjálfri væri hægt að ná fram miklum sparnaði. Þar hefur safnast saman fitulag sem hægt er að skera burt."

Gísla láðist hins vegar að geta þess að ríkið hljóp ekki í spik og safnaði velmegunarístru, eins og útgerðarmaður eða heildsali í sögu frá síðustu öld, á þeim fáu mánuðum sem núverandi ríkisstjórn hefur verið við völd. Bumban varð til á mörgum árum þegar flokksbræður hans og -systur stýrðu landinu.

Pistlahöfundarnir á hinu hægrisinnaða vefriti Andríki fóru yfir þessa stöðu af hreinskilni skömmu eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hvarf úr ríkisstjórn fyrr á þessu ári.

Þar var bent á nokkur af þeim málum, stórum og smáum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið að síðastliðin ár. Hér eru nokkur atriði af lista Andríkismanna frá því í mars:

Stjórnmálaflokkarnir voru settir á fullt framfæri ríkisins í lok árs 2006, tekjuskattur einstaklinga var hækkaður úr áður lögfestum 34,72% í 35,72% í byrjun árs 2007, ríkisútgjöld hafa aldrei aukist jafnmikið á tveimur árum og frá 2006 til 2008. Á þessum tveimur árum hækkuðu þau um 35 prósent eða 120 þúsund milljónir króna, tekjuskatturinn var hækkaður aftur um síðustu áramót, nú úr 35,72% í 37,20%, gripið var til dýrustu „mótvægisaðgerða" Íslandssögunar í minnsta atvinnuleysi sögunnar árið 2007, gerðar voru sértækar lækkanir á virðisaukaskatti í stað almennra lækkana í ársbyrjun 2007, gjaldeyrishöft voru lögð á landsmenn haustið 2008, stórfelld þjóðnýting banka og fyrirtækja hófst haustið 2008 og stendur enn yfir, óskýr lagasetning um innstæðutryggingar á grundvelli tilskipunar ESB færði skattgreiðendum ábyrgðina á Icesave og gæti gert ríkissjóð gjaldþrota, ríkissjóður fór úr því að vera sagður skuldlaus í það að enginn treystir sér til að segja til um hve skuldirnar eru miklar.

Niðurstaða Andríkismanna var að Sjálfstæðisflokkurinn hefði látið undan síga á nær öllum hugmyndafræðilegum vígstöðvum sínum á síðustu árum, til dæmis hefðu allir viðstaddir þingmenn flokksins greitt atkvæði með hækkun á tekjuskatti einstaklinga um síðustu áramót.

Af þessari upptalningu Andríkismanna er auðvelt að sjá að þeir sem aðhyllast minni ríkisrekstur og hóflega skattheimtu eiga sér ekki trúverðuga málsvara á Alþingi.

Það er afleit staða við núverandi aðstæður.




Skoðun

Sjá meira


×