Ísland tapaði 0-1 fyrir Bandaríkjunum í Algarve-bikarnum í Portúgal í dag þar sem bandaríska liðið skoraði sigurmarkið á 90. mínútu leiksins.
Natasha Kai skoraði mark Bandaríkjanna en það var spurning um hvort að hún hafi gert það á ólöglegan hátt. Skotið var glæsilegt en áður en hún lét vaða á markið voru grunsemdir um að hún hafi handleikið boltann.
"Það var mjög svekkjandi að fá á sig þetta mark í lokin. Ég á eftir að sjá það betur en einhverjar vilja meina að hún hafi lagt hann fyrir sig með hendinni," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska landsliðsins eftir leik.
Sigur bandaríska liðsins á Íslandi og 2-0 sigur Danmerkur á Noregi í hinum leik riðilsins þýðir að lið Bandaríkjanna er búið að tryggja sér sigur í riðlinum og sæti í úrslitaleik mótsins.