Íslandsmeistarar Hauka lentu ekki í teljandi erfiðleikum gegn Haukum 2 í 16-liða úrslitum Eimskipsbikars karla í handbolta í kvöld. Haukar unnu 28-38 sigur en staðan í hálfleik var 11-20.
Stefán Rafn Sigurmannsson var atkvæðamestur hjá Haukum með 10 mörk en Þórður Rafn Guðmundsson skoraði 8 mörk en hjá Haukum 2 var Þorkell Magnússon markahæstur með 8 mörk.
Þá reyndist Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, lærlingum sínum erfiður ljár í þúfu en hann skoraði 5 mörk í leiknum fyrir Hauka 2.
„Við veittum þeim smá mótspyrnu fyrstu fimmtán mínúturnar en þeir fóru svo frekar illa með okkur á lokamínútum fyrri hálfleiks. Sigur Hauka var því í raun aldrei í hættu eftir það en ég vona að þeir fjölmörgu áhorfendurnir sem mættu á leikinn hafi skemmt sér vel.
Annars verð ég að segja að mér fannst dómgæslan halla á okkur á stórum köflum í leiknum," sagði Aron í léttum dúr og kvaðst jafnframt hafa geta skorað enn fleiri mörk ef hann hefði fengið að taka vítin í sínu liði.
Páll Ólafsson gat ekki leikið með liði Hauka 2 í kvöld vegna meiðsla og sá því um að stýra liði Hauka í fjarveru Arons.