Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, segir að sínir menn hefðu einfaldlega tapað fyrir betra liði í úrslitaleik bikarkeppni karla í Laugardalshöllinni í dag.
Leikurinn var afar spennandi en Stjörnumenn voru lengst af með frumkvæðið í leiknum eftir að hafa náð yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta.
„Ég vissi vel þegar ég kom hingað í höllina í dag að það væri ekki sjálfgefið að vinna þennan leik," sagði Benedikt í samtali við Vísi eftir leik. „Það voru ansi margir sem gerðu ráð fyrir því að við myndum bara vinna þennan leik í dag en Stjarnan sýndi að þeir eru með hörkulið. Stjörnumenn voru bara betri en við í dag."
„Það er afar svekkjandi að hafa slegið út liðin í öðru, þriðja og fjórða sæti deildarinnar en guggnað svo í sjálfum úrslitaleiknum," sagði Benedikt enn fremur.
Hann segir að það hafi margt farið úrskeðis hjá sínum mönnum í dag. „Vörnin var skelfileg í fyrsta leikhluta en fór batnandi eftir því sem á leið. En sóknin var skelfileg. Það datt bara ekkert með okkur þar."
„En þrátt fyrir allt þetta er það fyrst og fremst alveg gríðarlega svekkjandi að hafa ekki náð í bikarinn í dag."