Breska blaðið Daily Mail birtir í dag mynd af Jose Mourinho þjálfara Inter þar sem hann fær sér í glas með Phil Neville leikmanni Everton og fyrrum leikmanni Manchester United.
Mourinho er nú að undirbúa lið sitt Inter fyrir síðari leikinn gegn Manchester United í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar annað kvöld, en myndin sem náðist af honum og Neville var tekin um klukkan tíu í gærkvöldi á Hilton hótelinu í Manchester.
Blaðamenn Daily Mail velta því eðlilega fyrir sér hvað rætt var á þessum óvenjulega fundi, en auðvelt er að leiða líkum að því að refurinn Mourinho hafi þarna verið að sanka að sér upplýsingum um United-liðið.
Nema hann sé þá að leita sér að fjölhæfum 32 ára gömlum varnar- og miðjumanni...?
Smelltu hér til að sjá myndina sem birtist á vef Daily Mail og taktu eftir rörinu sem er í drykknum hans Phil Neville. Fágað.