Haukamaðurinn Einar Örn Jónsson má ekki taka þátt í öðrum leik liðsins á móti Val í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild karla í handbolta. Aganefnd HSÍ dæmdi hann í eins leiks bann í gær.
Einar Örn Jónsson fékk rauða spjaldið fyrir að slá í andlit Valsmannsins Sigurðar Eggertssonar í fyrsta leiknum sem Haukar unnu 29-24. Dómarar leiksins, Helgi Hallsson og Sigurjón Þórðarson, ákváðu að gefa honum rautt spjald eftir löng fundarhöld.
Rauða spjaldið kom eftir 45 mínútur og 14 sekúndur þegar staðan var 20-17 fyrir Hauka en Einar Örn hafði þá skoraði eitt mark í leiknum.