Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs KR, stjórnar liði sínu ekki á móti Keflavík í stórleik Iceland Express deild kvenna í kvöld.
Benedikt flaug með meistaraflokki KR til Kína í morgun þar sem Íslandsmeistararnir mæta kínverska liðinu Beijing Aoshen í tveimur sýningarleikjum um næstu helgi. Þetta kemur fram á heimasíðu KR.
Það verða þeir Hörður Gauti Gunnarsson og Finnur Freyr Stefánsson sem munu stjórna KR-liðinu í kvöld en þetta er fyrsti leikur liðsins eftir að liðið tapaði fyrsta leiknum sínum í vetur.
Hörður Gauti var aðstoðarmaður Jóhannesar Árnasonar á síðasta tímabili og Finnur Freyr hefur þjálfað KR-konur í forföllum Benedikts í vetur.
Hamar sló KR út úr bikarnum fyrir tíu dögum en það er einmitt Keflavíkurliðið sem mætir KR-bönunum úr Hveragerði í átta liða úrslitunum eftir áramót.