Það varð ljóst eftir undanúrslitaleiki Lengjubikars kvenna í gær að nýtt nafn verður skrifað á bikarinn í deildabikar kvenna en Stjarnan og Þór/KA tryggðu sér þá sæti í úrslitaleiknum sem fram fer í Kórnum á laugardaginn kemur.
Þór/KA komst í úrslitaleikinn eftir 1-0 sigur á Breiðabliki í Boganum en Stjörnustúlkur þurftu vítaspyrnukeppni til þess að slá út Íslandsmeistara Vals.
Þetta verður í fyrsta sinn síðan 1999 sem Valur verður ekki í úrslitaleiknum en Hlíðarendaliðið var búið að spila níu úrslitaleiki í röð í deildabikar kvenna.
Fjögur félög hafa náð því að verða deildabikarmeistarar. Breiðablik hefur unnið titilinn fimm sinnum, KR vann hann í fjórða sinn í fyrra, Valur hefur unnið hann þrisvar og ÍBV vann hann í eina skiptið árið 2004.
Þetta verður fyrstu úrslitaleikur norðanstelpna í deildabikarnum en Stjarnan hefur einu sinni áður spilað til úrslita. Það var árið 1999 þegar liðið tapaði 0-4 á móti KR.
Þór/KA-liðið hefur reyndar orðið deildabikarmeistari undanfarin þrjú ár en liðið spilaði þá í b-deildinni. Þó/KA getur því orðið fyrsta félagið sem hefur unnið bæði A og B-deild deildabikars kvenna.
Úrslitaleikir í deildabikar kvenna frá upphafi:
2009 Stjarnan-Þór/KA ?-?
2008 KR-Valur 4-0
2007 KR-Valur 1-2
2006 Valur-Breiðablik 1-2
2005 KR-Valur 1-6
2004 ÍBV-Valur 3-1
2003 Valur-Breiðablik 4-1
2002 KR-Valur 4-0
2001 Breiðablik-Valur 1-1 (4-2 í vítakeppni)
2000 KR-Valur 8-2
1999 KR-Stjarnan 4-0
1998 Breiðablik-Valur 3-2
1997 Breiðablik-KR 2-0
1996 Breiðablik-Valur 4-2