Körfubolti

Ég er stoltur af mínu liði

Hreggviður Magnússon
Hreggviður Magnússon

"Það eru auðvitað vonbrigði að tímabilið sé á enda, mér fannst við eiga meira inni," sagði Hreggviður Magnússon leikmaður ÍR í samtali við Vísi eftir að lið hans féll úr leik gegn Grindavík í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express deildarinnar.

"Grindvíkingarnir eiga hrós skilið fyrir góðan leik og við áttum ekki svör við sterku liði þeirra í dag. Við náðum rispum á þá en glufur í vörninni hjá okkur gáfu þeim galopin þriggja stiga skot og þetta er síðasta liðið í deildinni sem þú mátt gefa svoleiðis," sagði Hreggviður.

ÍR-ingarnir riðu á vaðið og sendu erlendu leikmennina sína heim þegar kreppan skall á í haust og þó flest liðin hafi fylgt fordæmi þeirra á sínum tíma, eru þau mörg hver komin með erlenda leikmenn fyrir lokasprettinn í deildinni. Við spurðum Hreggvið út í þessi mál.

"Við gáfum út yfirlýsingu um það þarna strax í haust að við ætluðum að vera með íslenskt lið og stóðum við það. Fleiri lið lýstu því yfir að þau ætluðu ekki að vera með erlenda leikmenn en hafa nú hrúgað til sín útlendingum svona korteri fyrir úrslitakeppni og mér þykir það kannski ekki það skemmtilegasta. En ég er stoltur af mínum strákum og stoltur af mínu liði og hlakka til að mæta aftur til leiks á næsta ári," sagði Hreggviður í samtali við Vísi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×