Enski boltinn

Berlusconi kemur af fjöllum varðandi fréttir um Pirlo

Ómar Þorgeirsson skrifar
Andrea Pirlo.
Andrea Pirlo. Nordic photos/AFP

Silvio Berlusconi, forseti AC Milan, er steinhissa yfir fréttum ítalskra og enskra fjölmiðla í dag um að ítalski landsliðsmaðurinn Andrea Pirlo sé á förum frá AC Milan til Chelsea.

Pirlo er sagður hafa lagt inn skriflega beiðni um að vera settur á sölulista til þess að komast til Chelsea.

Berlusconi kveðst hins vegar ekkert vita um málið.

„Ég veit ekkert um þetta mál. Ég er ekki búinn að tala við Adriano [Galliani, stjórnarformann AC Milan] og fékk að heyra af þessum fréttum frá blaðamönnum. Ég get ekki neitað því að ég er mjög hissa ef rétt reynist," segir Berlusconi í samtali við ítalska fjölmiðla í dag.

Pirlo er búinn að vera sterklega orðaður við Chelsea í allt sumar eða síðan Carlo Ancelotti, fyrrum stjóri AC Milan, tók við stjórnartaumunum hjá Chelsea.

Það sama á reyndar við um flesta leikmenn AC Milan, en þeir eru fáir leikmennirnir í herbúðum Mílanófélagsins sem hafa ekki verið orðaðir við endurfundi við Ancelotti í sumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×