Handbolti

Einar: Það féll ekkert með okkur á lokakaflanum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Einar Jónsson.
Einar Jónsson.

„Ég er mjög ósáttur með að tapa en við getum sjálfum okkur um kennt. Við vorum að spila mjög góða vörn og markvarslan fín en þó svo að sóknarleikurinn hafi einnig flotið vel þá náðum við ekki að reka endahnútinn á færin sem við vorum að skapa okkur.

Florentina átti náttúrulega stórleik í markinu hjá þeim og það gerði útslagið," segir Einar Jónsson, þjálfari Fram, eftir 21-26 tapið gegn Stjörnunni í N1-deild kvenna. Einar vildi ekki vera að afsaka sig en hann gat ekki leynt því að vera mjög ósáttur með dómgæsluna í leiknum.

„Á síðustu fimmtán mínútunum fannst mér tveir karlmenn inn á vellinum ekki vera að gera góða hluti. Ég meina það voru Stjörnumenn í stúkunni sem voru bara skellihlæjandi. Þetta var bara ekki boðlegt fannst mér og ég er mjög ósáttur með þetta. Það féll ekkert með okkur á lokakaflanum.

Það stendur samt eftir að láta markvörð, hversu góð sem hún er, verja plús þrjátíu skot og það er eðlilega ekki vænlegt til sigurs," sagði Einar ósáttur í leikslok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×