„Bæði sóknarleikurinn og hraðaupphlaupin hjá okkur voru hræðileg. Okkar reyndustu menn gerðu hvern feilinn á fætur öðrum bæði í skotum og sendingum. Þetta jaðraði við að vera pínlegt á köflum," sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, eftir hinn ömurlega handboltaleik á milli Stjörnunnar og Hauka í kvöld.
„Við fengum mörg tækifæri til þess að ganga frá þessum leik en það vantaði aga og yfirvegun hjá okkur. Við þurfum að skoða þessa frammistöðu okkar ofan í kjölinn," sagði Aron sem skrifaði frammistöðuna samt á sviðsskrekk hjá sínum mönnum.
Skytturnar Sigurbergur Sveinsson og Björgvin Hólmgeirsson áttu báðir skelfilegan leik. Sigurbergur er nýkominn af stað eftir meiðsli og því ekki í formi en Björgvin var einfaldlega slakur.
„Það var einhver sviðsskrekkur í Björgvini og hrollur þar sem hann var að spila á móti sínu gamla liði."