Margir leikmenn handknattleiksliðs karla hjá HK eru ekki beint á hátindi líkamlegs atgervis síns eins og lesa mátti í umsögn ofanritaðs eftir leik liðsins gegn FH á dögunum.
Leikmenn liðsins virðast hafa tekið orð blaðamanns til sín því þeir hafa opnað síðu á Facebook sem heitir: "Sjá tólin fyrir jólin - bumban burt".
Síðunni er lýst sem samstöðusíðu meistaraflokks karka í HK þar sem markmiðið sé að ná burt því sem í daglegu máli megi kalla bumbu.
Virðingarvert framtak hjá HK-strákunum og Vísir hvetur sem flesta til þess að skrá sig á síðuna og hvetja strákana til dáða í baráttunni við aukakílóin.