GAIS tapaði í kvöld fyrir Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni, 1-0, á heimavelli.
Hallgrímur Jónasson og Eyjólfur Héðinsson voru báðir í byrjunarliði GAIS í kvöld. Hallgrímur lék allan leikinn en Eyjólfur var tekinn af velli á 80. mínútu.
Þetta var annar leikur Hallgríms í röð í byrjunarliði en hann hafði fyrir það ekki áður fengið tækifæri í byrjunarliði GAIS síðan hann kom til liðsins frá Keflavík fyrir núverandi tímabil.
GAIS er í tólfta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar en ein umferð er eftir af deildinni. GAIS er öruggt með sitt sæti.