Böðvar Þórir Kristjánsson er nýr þjálfari 1. deildarliðs Þórs frá Akureyri í körfunni en Böðvar mun taka við starfi Hrafns Kristjánssonar sem hætti með liðið í kjölfar þess að Þórsarar féllu úr Iceland Express deild karla í vetur. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórsara.
Böðvar er 38 ára gamall Keflvíkingur sem hefur bæði leikið með Keflavík og Þór í úrvalsdeild. Hann kom fyrst norður til Akureyrar til að spila með Þór árið 1995. Böðvar er að fá sitt fyrsta tækifæri með meistaraflokk en hann hefur þjálfað bæði drengja- og unglingaflokk hjá Keflavík og Þór.
„Mér líst mjög vel á starfið það er verið að taka körfuboltann á Akureyri í naflaskoðun. Stefnan er sett á að styrkja yngri flokka starfi á næstu árum og í kjölfarið muni meistaraflokkur skila sér í fremstu röð að nýju," sagði Böðvar í viðtali á www.thorsport.is.
Böðvar sagðist ennfremur ætla að koma með Keflavíkur-hugsunarháttinn og léttleikann inn í Þórsliðið. Kári Þorleifsson, formaður Körfuknattleiksdeildar, segir félagið ætla byggja liðið upp á þeim leikmönnum sem eru á svæðinu en að það sé ekkert útilokað að liðið fái frekari liðsstyrk.