Birkir Ívar Guðmundsson, handboltamarkvörður úr Haukum, á greinilega ekki samleið með Guðmundi Guðmundssyni, landsliðsþjálfara.
Guðmundur hefur ekki kallað eftir kröftum markvarðarins í þeim fimm stórmótum, sem hann hefur verið landsliðsþjálfari.
Birkir Ívar, sem tók þátt í heimsmeistaramótinu í Frakklandi 2001 er Þorbjörn Jensson var landsliðsþjálfari, var ekki með landsliðinu undir stjórn Guðmundar Þórðar í Evrópumótinu í Svíþjóð 2002, HM í Portúgal 2003, EM í Slóveníu 2004, Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og nú á ÓL í Peking.
Hann varði aftur á móti markið, sem aðalmarkvörður, á HM í Túnis 2005 og EM í Sviss 2006 er Viggó Sigurðsson var landsliðsþjálfari og á HM í Þýskalandi 2007 og EM í Noregi 2008 er Alfreð Gíslason var þjálfari.
Guðmundur hefur aðeins valið tvo markverði er hann hefur stjórnað landsliðinu á stórmótum.
Guðmundur Hrafnkelsson og Bjarni Frostason vörðu markið á EM 2002.
Guðmundur og Roland Valur Eradze vörðu markið á HM 2003 og á ÓL í Aþenu 2004. Guðmundur og Reynir Þ. Reynisson vörðu markið á EM 2004.
Björgvin Páll Gústafsson og Hreiðar Leví Guðmundsson verja markið á ÓL í Peking.