Fótbolti

Rossi mætir gömlu félögunum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guiseppe Rossi.
Guiseppe Rossi.

Patrice Evra, varnarmaður Manchester United, segir að það komi sér alls ekki á óvart hve vel hefur gengið hjá Guiseppe Rossi í liði Villareal á tímabilinu. Rossi yfirgaf United á síðasta ári en mætir sínum fyrrum félögum í Meistaradeildinni annað kvöld.

Rossi er 21. árs ítalskur sóknarmaður en honum gekk illa að vinna sér inn sæti á Old Trafford. Sir Alex Ferguson lét setja klásúlu í samninginn um söluna á Rossi og getur keypt hann til baka á ákveðnum tímapunkti á 6,6 milljónir punda.

„Ég vissi að hann yrði góður leikmaður. Maður sá það bara á æfingum, ef hann fékk boltann í teignum þá skoraði hann alltaf," sagði Evra. „Hann er alvöru atvinnumaður og það kemur mér ekki á óvart að hann sé að gera góða hluti með Villareal. Þegar hann yfirgaf Manchester United þá óskaði ég honum alls hins besta, ég ætla samt ekki að gera það fyrir leikinn gegn okkur á morgun."

„Það er ekki auðvelt að komast í liðið hjá Manchester United. Þegar ég kom fyrst þá var ég að berjast um sæti í liðinu við Gabriel Heinze og Mikael Silvestre. Samkeppnin í sókninni er jafnvel enn meiri. Við erum með Dimitar Berbatov, Carlos Tevez og Wayne Rooney. Cristiano Ronaldo getur spilað í sókninni og Ryan Giggs einnig," sagði Evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×