Finninn Jari-Matti Latvala varð í dag yngsti sigurvegari á heimsbikarmóti í rallakstri er hann bar sigur úr býtum í sænska rallinu í dag.
Latvala er 22 ára gamall og varð 58 sekúndum á undan liðsfélaga sínum, Mikko Hirvonen. Heimsmeistarinn Sebastien Loeb náði ekki að klára keppnina vegna áreksturs.
Latvala og Hirvonen aka báðir á Ford, rétt eins og Gigi Galli sem varð í þriðja sæti.
Latvala bætti met landa síns Henri Toivonen sem lést árið 1986. „Henri var einn af mínum átrúnaðargoðum í æsku og hef ég alltaf óskað mér þess að bæta þetta met hans," sagði Latvala. „Þetta er ótrúleg tilfinning, ég trúi þessu varla."
Henning Solberg frá Noregi ók manna best í dag en hann lenti í árekstri í gær og var því allt of langt á eftir forystumönnunum til að ná þeim.