„Eins og aðstæður eru núna sáum við ekki fram á að ná fram þeim samlegðaráhrifum sem við stefndum að," segir Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, en bankinn tilkynnti í morgun að hætt hefði verið við yfirtöku á hollenska bankanum NIBC.
„Þetta var sameiginleg niðurstaða. Skynsamleg ákvörðun í ljósi aðstæðna," segir Hreiðar. Viðræður um möguleikann á því að hætta við yfirtökuna á NIBC hafi staðið yfir í nokkrar vikur, að hans sögn.
Michael Enthoven, forstjóri NIBC, tekur í sama streng í samtali við fréttastofu Reuter í dag. Þar kemur sömuleiðis fram að hagnaður NIBC í fyrra hafi numið 91 milljón evra, jafnvirði 8,6 milljörðum íslenskra króna, en það er 62 prósenta samdráttur á milli ára.
Þar kemur sömuleiðis fram að markaðsverðmæti skuldabréfavafninga NIBC hafi numið 7,2 milljörðum evra í byrjun síðasta árs en einungis 2,6 milljörðum í árslok. Það jafngildir 63 prósenta samdrætti á tólf mánuðum. Þessi hluti bankans fylgdi hins vegar ekki með í yfirtöku Kaupþings.
Hreiðar segir að bankinn hafi horft til þess að lækka rekstrarkostnað og auka tekjur samstæðunnar. „Það hefði orðið erfitt að að ná því fram," segir Hreiðar og bætir við að bankinn muni eftirleiðis einbeita sér að eigin rekstri.
Frekari fyrirtækjakaup eru ekki fyrirhuguð á næstunni.
Tilkynnt var um yfirtöku Kaupþings á NIBC í júlí í fyrra. Kaupverð nam þremur milljörðum evra, jafnvirði 286 milljörðum íslenskra króna og hefði það orðið stærsta yfirtaka Íslandssögunnar ef af hefði orðið. Eftir því sem dregist hefur að tilkynna um lok viðskiptanna hafa ýmsar sögu farið á kreik, svo sem að kaupin hefðu orðið of stór biti fyrir bankann. Hreiðar Már vísar því á bug. Bankinn hafi aukið við eigið fé sitt vegna þeirra auk þess sem forgangsréttarútboð var fyrirhugað. Ekkert verður nú hins vegar af útboðinu auk þess sem ljóst er að bandaríska fjárfestingafélagið JC Flowers, stærsti eigandi NIBC, verður ekki einn af stærstu hluthöfum Kaupþings.