Jason Kidd nálgast óðfluga sína 100. þreföldu tvennu á ferlinum en númer 98 kom í nótt.
Kidd skoraði þrettán stig, tók ellefu fráköst og gaf tíu stoðsendingar þegar New Jersey tapaði fyrir Denver Nuggets í nótt, 100-85.
Þetta var reyndar áttunda tap New Jersey í röð en áður en taphrinan hófst hafði liðið unnið átján leiki og tapað sautján. Nú eru tapleikirnir orðnir 25.
Ef að Kidd nær tveimur þreföldum tvennum í viðbót á þessu tímabili nær hann á sama tíma tveimur merkum áföngum. Annars vegar að ná eitt hundrað þreföldum tvennum á ferlinum og flestar þrefaldar tvennur á einu tímabili - þrettán talsins.
Hann hefur náð ellefu nú þegar en hann setti sitt persónulega met á síðasta tímabili er hann náði tólf þreföldum tvennum.
Kidd er i þriðja sæti yfir flestar þrefaldar tvennur í NBA-deildinni en hann á langt í að slá hinum tveimur við. Oscar Robertson á flestar, 181 talsins, og Magic Johnson náði 138 slíkum á sínum ferli.