Hanna Guðrún Stefánsdóttir, leikmaður Hauka, var í dag valin besti leikmaður fyrstu sjö umferðanna í N1-deild kvenna.
Hanna hefur farið mikinn bæði með Haukum og íslenska landsliðinu að undanförnu en Haukar eru sem stendur á toppi N1-deildar kvenna með fjórtán stig, jafn mörg og Stjarnan.
„Þetta tímabil hefur verið skemmtilegt. Liðinu hefur gengið vel og leikmenn eru mjög jákvæðir. Það er góð samstaða í liðinu," sagði Hanna í samtali við Vísi í dag.
Hún er nýkomin aftur til landsins eftir að hafa tekið þátt í undankeppni HM 2009 en riðill Íslands fór fram í Póllandi. Íslandi tókst ekki að komast áfram í næstu umferð undankeppninnar þar sem liðið tapaði bæði fyrir Slóvakíu og Póllandi.

„Stefnan var sett á fyrsta sætið í riðlinum og áttum við góðan séns á því. Við spiluðum kannski ekki vel í fyrstu tveimur leikjunum, gegn Lettlandi og Sviss, en unnum þó þá leiki. Við áttum líka að vinna hina tvo."
„Þetta er auðvitað fúlt enda langar manni alltaf að vinna. En svona er þetta bara."
Hanna er 29 ára gömul og hefur verið að spila með Haukum undanfarna tvo áratugi. Hún segir áhugann enn vera til staðar hjá sér.
„Gleðin er enn til staðar og maður hefur gaman af þessu. Það koma niðursveiflur af og til en maður reynir alltaf að spila sinn leik. Þetta er þó alltaf jafn gaman og ég ætla að halda þessu áfram í einhver ár í viðbót, á meðan skrokkurinn leyfir og áhuginn er enn fyrir hendi."