Úrvalsvísitalan stóð við lok dags í 355 stigum og hefur ekki verið lægri síðan snemma í ágúst árið 1994.
Vísitalan hefur tekið fjórar dýfur á þessu fjórtán ára tímabili, þó ekkert í líkingu við þá dýfu sem nú hefur staðið yfir í um eitt og hálft ár.
Fyrstu merkjanlegu sveiflurnar voru í maí árið 1997 þegar vísitalan náði hápunkti í 1.270 stigum en seig hægt og bítandi niður í 971 stig í apríl næsta ár á eftir. Eftir það tók hún að rísa á ný.
Þar á eftir tók netbólan við í byrjun árs 2000. Þá hafði vísitalan náði nýjum hæðum, 1.889 stigum. Niðursveiflan stóð fram í september árið eftir þegar botninum var náð í 995 stigum árið 2001.
Aftur féll vísitalan í bankahruninu í febrúar í hitteðfyrra þegar vísitalan fór úr 6.925 stigum niður í 5.260 stig. Dýfan stóð stutt yfir en botninum var náð í ágúst sama ár.
Eftir það reis hún hratt og náði enn nýjum hæðum 18. júlí árið 2007 en þá endaði hún í 9.016 stigum. Eftir það tók yfirstandandi fjármálakreppa við sem riðið hefur húsum um allan heim.
Eftir gengis- og bankahrun hér á landi í október að ógleymdum fyrirtækjum sem hafa horfið af markaði nemur hrun Úrvalsvísitölunnar 96 prósentum á því eina og hálfa ári síðan hún stóð í hæsta gildi.