Fimmti leikur LA Lakers og San Antonio Spurs í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar í NBA fer fram klukkan eitt í nótt og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Meistarar San Antonio mæta til Los Angeles með allt undir í nótt, því tap þýðir að liðið er úr leik. Lakers er 3-1 yfir í rimmunni eftir góðan sigur í San Antonio í fjórða leiknum.
San Antonio hefur verið eitt allra besta lið síðustu 10 ára í NBA, en liðinu virðist ætla að ganga erfiðlega að verja titil sinn.
Liðið varð NBA meistari 1999, 2003, 2005 og 2007, en vinni Lakers í nótt, er ljóst að Spurs mistekst enn og aftur að verja titilinn frá árinu áður.