FH og Kiel hafa náð samningum um kaup þýska stórliðsins á Aroni Pálmarssyni. Aron mun ganga til liðs við Kiel næsta sumar.
Samkvæmt heimasíðu FH kveður samningurinn einnig um samskipti og samstarf í náinni framtíð þar sem FH fær tækifæri til að senda sína þjálfara til Kiel í „námsferðir" og jafnvel unga og efnilega leikmenn í lengri og styttri tíma.
Einnig má segja að með þessum samningi sé FH orðin eins konar gátt fyrir Kiel inn í íslenskan handknattleik sem geti þannig fylgst betur en ella með ungum og upprennandi leikmönnum í framtíðinni eins og það er orðað á heimasíðunni.
Þar er einnig tekið fram að fjárhagslegur ávinningur FH sé mjög ásættanlegur og byggist að hluta til á framgöngu Arons á næstu árum.