Þrír leikmenn í Landsbankadeild karla voru í gær úrskurðaðir í leikbann af aga- og úrskurðarnefnd KSÍ.
Paul McShane, Fram, og Skagamaðurinn Andri Júlíusson fengu báðir að líta rauða spjaldið í síðustu leikjum sínum og voru dæmdir í eins leiks bann.
Þá var Fylkismaðurinn Ian Jeffs dæmdur í bann vegna fjögurra gulra spjalda. Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis, var einnig dæmdur í bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í leik Fjölnis og Fylkis í síðustu viku.
Leifur er hins vegar þegar búinn að taka út bannið en hann gerði það er Fylkir mætti KR á sunnudaginn.
Tveir leikmenn Aftureldingar, Mist Edvardsdóttir og Sophia Mundy, voru dæmdir í eins leiks bann en liðið leikur í Landsbankadeild kvenna. Mist vegna brottvísunar en Mundy vegna fjögurra áminninga.