„Við erum enn að skoða fyrirtækið," segir Jón Ásgeir Jóhannesson, starfandi stjórnarformaður Baugs Group, um áhuga á yfirtöku á bandarísku munúðarvöruversluninni Saks. Baugur á 8,5 prósenta hlut í Saks og hefur verið orðað við yfirtöku á versluninni síðan í október í fyrra. Ekki er reiknað með að neitt gerist fyrir jólin, að sögn stjórnarformannnsins.
Jón Ásgeir segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna í dag að Baugur búi yfir miklu fjármagni fari það í yfirtökuferli. Það hafi skilað sér í sölu eigna upp á síðkastið.

„Saks er sterkt vörumerki. Ég held að fyrirtækið geti komið sér í hæsta flokk sem frábært fyrirtæki," segir Jón Ásgeir. Hann tæpir sömuleiðis á því að Baugur hafi endurskipulagt rekstur sinn fyrir nokkru, hafi náð inn fjármagni með sölu á hlutum sínum í fjölmiðla- og tæknifyrirtækjum og sé því tilbúið til frekari umsvifa í smásölurekstri.
„Við höfum komið auga á nokkur tækifæri á markaðnum en ætlum að standa á hliðarlínunni þar til eftir jólin og sjá hvernig málin þróast," segir hann.