Nokkur ólga hefur verið á leikmannamarkaðnum í NBA deildinni undanfarna daga og sá leikmaður sem mestu fjaðrafoki hefur valdið er framherjinn sterki Elton Brand hjá LA Clippers.
Brand fékk sig lausan út úr samningi sínum við Clippers á dögunum en talið var að hann myndi semja aftur við félagið - ekki síst eftir að það fékk til sín leikstjórnandann Baron Davis frá Golden State.
Nú er hinsvegar komin upp ný staða í málinu og heimildamenn ESPN segja nær öruggt að Brand ætli sér að taka samningstilboði frá Philadelphia 76ers.
Ef þessi tíðindi verða að veruleika, yrði það gríðarlegt áfall fyrir Clippers-liðið sem ætlaði sér að blanda sér aftur í baráttu bestu liðanna í Vesturdeildinni með því að semja aftur við Brand og bæta Davis í leikmannahópinn.
Brand var raunar meira og minna meiddur síðasta vetur, en hann er tvöfaldur stjörnuleikmaður um þrítugt og jafnan talinn einn besti kraftframherji deildarinnar.
Philadelphia þarf að taka til í leikmannamálum sínum ef félagið á að geta samið við Brand, en skv heimildum ESPN er félagið þegar byrjað að gera ráðstafanir þess efnis.
Niðurstöðu í málinu er að vænta fjótlega, en Brand um hafa verið í Philadelphia í gærkvöld þar sem hann átti fund með forráðamönnum 76ers.