Pólverjar og Svíar gerðu í kvöld jafntefli 22-22 í æsilegum fyrsta leik liðanna í undankeppni Ól í Póllandi. Fyrr í dag vann íslenska liðið öruggan sigur á Argentínumönnum og er því í efsta sæti riðilsins eftir fyrsta daginn.
Stemmingin í Hala Stulecia höllinni í Wroclaw var rafmögnuð í kvöld, en heimamenn náðu ekki að nýta sér meðbyrinn og landa sigri á sterkum Svíunum.
Pólska liðið fékk tvö tækifæri til að tryggja sér sigurinn í síðustu sókn leiksins, en Peter Gentzel markvörður sænska liðsins sá við stórskyttunni Karol Bielecki og tryggði jafnteflið.
Íslenska landsliðið mætir Pólverjum á morgun klukkan 18:15 og fyrr um daginn, eða klukkan 16:00, leika Svíar við Argentínumenn.