Handbolti

Aron: Munum kæra ef rétt reynist

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, sagði í samtali við Vísi að þeir munu kæra leikinn við Fram í ljós ef í ljós kemur að mark Fram var tvískráð í leiknum.

„Það er alveg klárt að við kærum úrslit leiksins ef þetta reynist tilfellið," sagði Aron.

Blaðamaður Fréttablaðsins gerði athugasemd við ritaraborðið í hálfleik að Fram hefði í raun skorað sautján mörk í fyrri hálfleik en stigataflan í Laugardalshöllinni sýndi að Fram hefði skorað átján mörk.

„Það kom hlutlaus aðili upp að ritaraborðinu og gerði athugasemd við þetta og ítrekar það svo. Það voru allar aðstæður fyrir hendi að stöðva leikinn og skoða þetta betur. Það var ekki gert."

Aron segir að þetta sé einnig leiðinlegt mál fyrir Fram.

„Þeir unnu bikar í dag en þegar fjöldi marka liðsins er vitlaus skráður er ekkert annað að gera en að spila leikinn aftur. Það er ekki hægt að láta þessi úrslit standa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×