Hermann Hreiðarsson var í dag kjörinn knattspyrnumaður ársins af KSÍ. Hann segist ekki kvíða framtíðinni hjá Portsmouth þótt hann hafi þurft að verma bekkinn að undanförnu.
„Þetta ár hefur verið fremur kaflaskipt hjá mér," sagði Hermann en hann féll í vor með Charlton úr úrvalsdeildinni.
„Við klúðruðum í raun tímabilinu með Charlton fyrir áramót á síðasta tímabili. Við unnum fleiri stig eftir áramót en það reyndist bara of seint."
Hann gekk svo til liðs við Portsmouth í sumar og var fastamaður í byrjunarliðinu þar til hann meiddist í leik gegn West Ham í lok október.
„Ég var nú bara frá í tvær vikur en Noe Pamarot sem kom inn í liðið í minn stað negldi boltanum í samskeytin á móti Newcastle skömmu síðar. Það var auðvitað svekkjandi að þurfa að sitja á bekknum en það er allt í lagi að prófa það í fyrsta skipti 33 ára gamall," sagði hann í léttum dúr.
„En ég veit hvaða álit þjálfarinn hefur á mér og veit að ég er inn í framtíðarplönum hans. Ég fer því ekki að eitra matinn hjá mönnum alveg strax - gef þeim eins og eina viku í viðbót."