Handbolti

Fram mistókst að grípa toppsætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anett Köbli skoraði þrjú mörk fyrir Fram í dag.
Anett Köbli skoraði þrjú mörk fyrir Fram í dag. Mynd/Völundur

Haukar og Fram gerðu jafntefli í N1-deild kvenna í dag, 24-24. Fram er nú við hlið Stjörnunnar á toppi deildarinnar en með lakara markahlutfall.

Stjarnan tapaði í gær óvænt fyrir FH á heimavelli og hefði því Fram komist eitt á toppinn með sigri.

Jafnt var á nánast öllum tölum í leiknum en mest munaði tveimur mörkum á liðunum. Staðan í hálfleik var jöfn, 11-11.

Haukar náðu að taka frumkvæðið af Fram í upphafi síðari hálfleiks en Fram náði því aftur þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Það voru hins vegar Haukar sem áttu síðustu sókn leiksins en síðasta skotið í leiknum hafnaði í stöng Fram-marksins.

Ramune Pekarskyte skoraði sjö mörk fyrir Hauka í leiknum og Sandra Stojkovic fimm.

Hjá Fram voru þær Ásta Birna Gunnarsdóttir og Stella Sigurðardóttir markahæstar með fimm mörk hver.

Haukar eru í fimmta sæti deildarinnar með níu stig, fjórum stigum á eftir Gróttu sem er í fjórða sæti og sex stigum á eftir toppliðum Stjörnunnar og Fram.

Valur er í þriðja sæti með fjórtán stig. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×