SPRON Verðbréf dótturfélag SPRON hf., hefur opnað skrifstofu í Berlín og hefur ásamt íslenskum fjárfestum keypt 430 íbúðir þar í borg fyrir fimm og hálfan milljarð króna. Hlutverk skrifstofunnar er að veita ráðgjöf og annast fjárfestingar í fasteignum og fyrirtækjum í Þýskalandi, sem og á nálægum svæðum og bæta með því enn frekar þjónustu við einka- og fyrirtækjafjárfesta á Íslandi.
Í tilkynningu frá SPRON kemur fram að verkefnin þar verði unnin í samvinnu við fyrirtækjaráðgjöf SPRON Verðbréfa á Íslandi og í Berlín. Kristján Guðmundsson hefur verið ráðinn til SPRON Verðbréfa í Berlín og mun hann leiða fasteignahluta starfseminnar.
Haft er eftir Guðmundi Haukssyni, forstjóra SPRON, að skrifstofurnar í Berlín geri sparisjóðnum kleift að fylgja betur eftir þeim fjárfestingum sem að hann hafi ráðist í með viðskiptavinum sínum auk þess að nýta þá þekkingu og reynslu sem byggð hefur verið upp að undanförnu. „Við sjáum frekari
tækifæri á þessum markaði og horfum einnig til Eystrasaltsríkjanna og Mið-Evrópu þar sem efnahagsumhverfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum," segir hann.