Úrvalsvísitalan féll um 3,42 prósent skömmu eftir að viðskipti hófust í Kauphöllinni í morgun. Þetta er fjórði dagurinn í röð sem vísitalan lækkar en hún hefur farið niður um 11,4 prósent í vikunni.
Greiningardeild Landsbankans benti á það í Vegvísi sínum í gær að niðursveiflan á fjármálamörkuðum nú sé dýpri en í óróleikanum í ágúst.
Til samanburðar stendur Úrvalsvísitalan nú í 7.044 stigum en hún fór niður í 7.572 þegar verst lét um miðjan ágúst.
Gengi bréfa í FL Group lækkaði langmest skömmu eftir upphaf viðskiptadagsins, eða um rúm fimm prósent. Gengi bréfa í félaginu stendur í 21,7 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan seint í september á síðasta ári.
Fast á hæla FL Group fylgdu bankar og önnur fjármálafyrirtæki, svo sem Exista, SPRON, Straumur, Kaupþing og Landsbankinn. Gengi flestra félaganna hefur ekki verið lægra síðan í byrjun síðasta hausts.