Ríkasti maður Indlands gaf í dag eiginkonu sinni fjögurra milljarða króna Airbus einkaþotu, í tilefni af því að hún varð 44 ára. Og Mukesh Ambani lét auðvitað innrétta þotuna sérstaklega fyrir hana Neetu sína. Í henni er meðal annars skrifstofa, svefnherbergissvíta, baðherbergi með nuddpotti og tilheyrandi.
Mukesh er einnig að byggja nýtt hús fyrir sex manna fjölskyldu sína. Það er upp á 27 hæðir. En það eru ekki neinar venjulegar hæðir. Lofthæð í húsinu verður þreföld venjuleg lofthæð í íbúðarhúsum. Hjallurinn verður því 173 metrar að hæð. Rúmlega tvær Hallgrímskirkjur.
Húsið er með þyrlupalli á þakinu og heilsurækt á tveim hæðum. Á sex hæðum eru bílastæði og íbúðir fyrir 600 manna þjónustulið fjölskyldunnar. Áætlað verð er um 60 milljarðar króna.