Teymi tapaði 1.187 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Hagnaðurinn á níu fyrstu níu mánuðum ársins nam hins vegar 1.575 milljónum króna.
Greiningardeildir bankanna reiknuðu með allt frá 907 milljóna króna tapi til 87 milljóna króna hagnaðar á tímabilinu.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) á þriðja ársfjórðungi nam 1.135 milljónum króna samanborið við 945 milljónir á sama tíma í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam rekstrahagnaðurinn hins vegar 2.944 milljónum króna.
Hlutdeild í tapi og niðurfærsla hlutdeildarfélagsins Hands Holding nam 1.095 milljónum króna.
Þá nam sala 5,3 milljörðum króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu.
Handbært fé frá rekstri nam 750 milljónum króna en eiginfjárhlutfall var 25 prósent á þriðja ársfjórðungi. Á fyrstu níu mánuðum ársins nam handbært fé hins vegar 2.060 milljónum króna.
Haft er eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Teymis, að reksturinn hafi gengið mjög vel á fjórðungnum enda hafi velta og rekstrarhagnaður verið í samræmi við áætlanir.